News
Henry Alexander Henrysson heimspekingur segir að ekki megi gera lítið úr tilfinningum Birgis Þórarinssonar þingmanns en eins og fram hefur komið þá fór Birgir úr Miðflokknum á föstudag og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Birgi var þar vel tekið en ýmsir hafa undrast þessi vistaskipti svo stuttu eftir kosningar. Birgir lýsti einelti og vanlíðan vegna Klaustursmálsins sem kom upp fyrir þremur árum síðan þegar hann útskýrði ákvörðun sína. Henry velti fyrir sér hvort réttara sé að ef þingmenn treysti sér ekki til þess að starfa með þeim flokki sem þeir eru kjörnir fyrir þá segi þeir af sér í stað þess að ganga til liðs við annan stjórnmálaflokk. Borgþór Arngrímsson fór yfir dönsk málefni á Morgunvaktinni. Þar á meðal komu Friðriks krónprins til Íslands, stóra minkamálið, slæma stöðu dansks sjávarútvegs og mögulega nýja byggð í Kristjaníu. Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, sagði Ágústi Ólafssyni, fréttamanni RÚV á Akureyri, frá miklum uppgangi í Mývatnssveit. Meðal annars nýrri og fjölbreyttri starfsemi í gamla grunnskólanum að Skútustöðum. Tónlist: Mrs. Robinson og 50 ways to leave your lover, með Paul Simon. The sounds of silence með Simon og Garfunkel. Kære lille mormor með Richard Ragnvald og að lokum You can call með afmælisbarni dagsins, Paul Simon, en hann er áttræður í dag. Umsjón: Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir.