News
Spennandi kosningar eru á Bretlandi í dag þar sem kosið er til þings í Skotlandi og Wales og til fjölmargra bæjar- og sveitarstjórna. Þá eru aukakosningar um þingsæti í Hartlepool í norðausturhluta Englands. Því er spáð að Íhaldsflokkurinn vinni það sæti, en Verkamannaflokkurinn hefur átt þingmann kjördæmisins frá 1964. Spennan er mest í Skotlandi þar sem Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, gæti unnið hreinan meirihluta á skoska þinginu. Undir lok Heimsgluggans ræddu Þórhildur Þorkelsdóttir og Þórunn Elísabet Bogadóttir við Boga Ágústsson um 200 ára ártíð Napóleons Frakkakeisara. Hann lést í útlegð á smáeyjunni Sankti Helenu sem er útnári í miðju Suður-Atlantshafi. Arfleifð hans er afar umdeild í Frakklandi. Napóleon gerbreytti stjórnskipan Frakklands, vann mikla hernaðarsigra en var að lokum borinn ofurliði í orrustunni við Waterloo í Belgíu 1815. Frakkland nútímans ber enn svip af þeim breytingum sem Napóleon gerði. En hann skerti einnig réttindi kvenna og kom þrælahaldi á að nýju í nýlendum Frakka og þess vegna finnst mörgum ótilhlýðilegt að halda upp á ártíð hans. Emmanuel Macron Frakklandsforseti reyndi að skauta fram hjá deilunum í ræðu í gær en sagði að ekki væri hægt að þurrka út fortíðina vegna þess að hún passaði ekki við hugmyndir samtímans. Nei, Napóleon Bonaparte er hluti af okkur, sagði Macron.