Norðurskautsráðið og saga Gyðinga og stofnun Ísraels

Share:

Listens: 0

Heimsglugginn

News


Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins er í Reykjavík í dag en hvaða fyrirbrigði er Norðurskautsráðið? Bogi Ágústsson og Björn Þór Sigbjörnsson ræddu það í Heimsglugga Morgunvaktar Rásar 1. Þá ræddu þeir bakgrunn deilu Palestínumanna og Ísraelsmanna sem rekja má tvö þúsund ár aftur í tímann. Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna þeirra landa sem liggja á eða að Norðurheimskautinu. Aðaláherslan í starfi ráðsins er á umhverfismál og sjálfbærni. Drög að slíku samstarfi voru lögð 1991 með Rovaniemi-ferlinu sem gengur út á samstarf um umhverfismál á Norðurslóðum. Norðurskautsráðið var síðan stofnað með Ottawa-yfirlýsingunni 1996. Ályktanir ráðsins hafa fyrst og fremst gengið út á umhverfismál, einkum loftslagsbreytingar, en á síðustu árum hefur verið rætt um að ráðið fjalli líka um álitamál varðandi nýtingu auðlinda og landakröfur á Norðurslóðum. Björn Þór og Bogi ræddu hvernig samstarfið hefur gengið, hættuna á hernaðarátökum á svæðinu, yfirráð yfir svæðinu og hvernig Íslendingum hefur tekist til í tveggja ára formennsku í Norðurskautsráðinu. Bakgrunn átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna má rekja 2000 ár aftur til þess tíma er Rómverjar gerðu Gyðinga brottræka frá því svæði sem nú er Ísrael. Gyðingar máttu alla tíð sæta ofsóknum í þeim löndum þar sem þeir bjuggu en með síonismanum á síðasta hluta 19. aldar kom upp hreyfing um að þeir eignuðust heimaland í Palestínu. Hundruð þúsunda gyðinga fluttust til Palestínu á 20. öld og þar sköpuðust deilur og átök við Palestínuaraba sem bjuggu fyrir í landinu. Gyðingar nutu almennrar samúðar í heiminum eftir útrýmingarherferð nasista í síðari heimsstyrjöldinni og það má heita höfuðorsök þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti að skipta Palestínu í nóvember 1947. Það var lagalegur grundvöllur stofnunar Ísraelsríkis í maí 1948. Í æviminningum Abba Ebans, sem var einn helsti leiðtogi Gyðinga og lengi utanríkisráðherra Ísraels, segir að Thor Thors, sendiherra Íslendinga hjá SÞ, hafi með ræðu sinni, þegar skipting Palestínu var rædd, haft mikil áhrif á aðra þingfulltrúa.