News
Þessa vikuna er verið að tilkynna um þá sem fá Nóbelsverðlaunin, þau vekja alltaf mikla athygli en við leiðum ekki alltaf hugann að uppruna þeirra eða hvenær þau öðluðust þann virðingarsess sem þau hafa. Þetta ræddu Björn Þór Sigbjörnsson, Bogi Ágústsson og Guðrún Hálfdánardóttir í Heimsglugga vikunnar á Morgunvakt Rásar-1. Þá var einnig talað um listaverk eftir Wayne Binitie sem verður á Loftslagsráðstefnunni í Glasgow. Verkið heitir ,,1765-Loft frá Suðurskautslandinu." Listamaðurinn sýnir þar ís og loft sem fengið var af 110 metra dýpi í jöklinum á Suðurskautslandinu. Einnig var stuttlega minnst á þann möguleika að allir forsætisráðherrar Norðurlanda gætu verið konur þegar Magdalena Anderson tekur við af Stefan Löfven í nóvember. Kona hefur aldrei fyrr gegnt embætti forsætisráðherra í Svíþjóð. Erna Solberg er enn forsætisráðherra í Noregi þó að búist sé við að Jonas Gahr Støre taki við innan tíðar. Katrín Jakobsdóttir er sömuleiðis enn forsætisráðherra Íslands. Í Danmörku er Mette Frederiksen forsætisráðherra og Sanna Marin í Finnlandi.