News
Vanda Sigurgeirsdóttir er nýr formaður Knattspyrnusambands Íslands en bráðabirgðastjórn tók við sambandinu á laugardag. Stjórninni er ætlað að starfa fram að næsta knattspyrnuþingi sem verður haldið í febrúar. Hún ætlar að bjóða sig fram til endurkjörs þá. Vanda segir að það sé hlutverk landsliðsþjálfara að velja lið, ekki stjórnar. Núverandi stjórn kom ekki að þeirri ákvörðun að Aron Einar Gunnarsson yrði ekki valinn í landsliðið núna en það sé hennar persónulega skoðun að meðan mál einstakra leikmanna séu til skoðunar sé eðlilegt að þeir stígi til hliðar. Sigrún Davíðsdóttir fór yfir ný gögn, svonefnd Pandóruskjöl, sem upplýst var um í fjölmiðlum í gær. Um er að ræða upplýsingar um fjölmarga þjóðarleiðtoga og embættismenn sem og þekkt athafnafólk. Skortur á eldsneyti rataði víða í fjölmiðla í síðustu viku og er nú rætt um að mögulega verði skortur á vörum í Bretlandi næstu vikur. Þingmennirnir Björn Leví Gunnarsson Pírötum og Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokki fóru yfir stöðu mála í pólitíkinni í síðasta hluta þáttarins. Þar á meðal undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis sem kemur saman í dag. Hennar verkefni er meðal annars að leysa úr þeirri flækju sem komin er upp í Norðvesturkjördæmi. Eins ræddu þingmennirnir mögulegar ríkisstjórnir og Njáll Trausti telur eðlilegt að hann verði ráðherra ef Sjálfstæðisflokkur fer í ríkisstjórn. Tónlist: Unforgettable með Gunnari Gunnarssyni og Blueberry Hill með Fats Domino. Umsjón: Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir.