News
Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir að ungmenni sofi og hreyfi sig of lítið en þetta sýna rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilsuhegðun ungra Íslendinga. Töluverð breyting, til hins verra, verður á milli skólastiga og hafa vísindamenn við háskólann rætt við skólayfirvöld um hvað sé til ráða. Svo sem að seinka skóladeginum til klukkan 9. Til þess að ná til ungs fólks hefur menntavísindasviðið komið hlaðvarpi á laggirnar, heilsuhegðun ungra Íslendinga. Erlingur segir að hlaðvarpið hafi fengið góðar viðtökur enda sé hlaðvarp miðill sem ungt fólk nýtir sér og því góð leið til að miðla þekkingu til þeirra. Tími boða og banna sé liðinn þegar kemur að forvörnum, nær sé að fræða og upplýsa. Vera Illugadóttir fjallaði um hérað í Moldóvu, Transnistríu, sem kannski fáir þekkja en knattspyrnulið héraðsins, Sheriff Tiraspol, hefur staðið sig vel í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í ár. Vera greindi hlustendum frá sögu þessa héraðs og þar á meðal einni af helstu atvinnugrein þess - smygli. Eins fyrirtækjasamsteypu sem er allt í öllu og á þar á meðal samnefnt knattspyrnufélag, Sheriff Tiraspol. Eigendur þess hafa rekið matvöruverslanir, eiga fjarskiptafyrirtæki, bílasölur, fjölmiðla og svo mætti lengi telja. Eigendurnir eru fyrrverandi leyniþjónustumenn en þeir störfuðu fyrir KGB á sínum tíma. Óðinn Svan Óðinsson ræddi við Jón Hjaltason sagnfræðing um þrjá hörmulega eldsvoða á Akureyri á síðustu öld en 18. október voru 115 ár liðin frá miklum eldsvoða á Akureyri; Oddeyrarbrunanum, svokallaða. Fimm árum fyrr, árið 1901, brunnu fimm hús á Akureyri og eins brunnu nokkur hús á Akureyri árið 1911. Tónlist: Fyrir þig með Hjálmum og Er hann birtist með Hjálmum og Mr. Silla. I Say A Little Prayer með Dionne Warwick. Lokalag þáttarins var Kvæðið um litlu hjónin í flutningi Tríós Guðmundar Ingólfssonar. Umsjón: Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir.