News
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir heiminn standa á fordæmalausum tímum þar sem vöruskortur er staðreynd. Þetta er afleiðing Covid-faraldursins en vegna hans lá starfsemi verksmiðja víða niðri. Skipafélögin mörg hver brugðust kolrangt við með því að setja fjölda flutningaskipa í brotajárn með þeim afleiðingum að tafir urðu á afhendingu á vöru. Hann á ekki von á því að vöruskortur verði áberandi í verslunum en sennilega þurfi almenningur að sætta sig við að bíða lengur eftir vörunni en áður. Þetta sé ástand sem muni væntanlega vara fram á næsta ár með tilheyrandi verðbólguþrýstingi. Sigrún Davíðsdóttir fjallaði um morðið á breska þingmanninninum David Amess og viðbrögðum annarra þingmanna. Bókmenntir og tónlist bar einnig á góma í Lundúnaspjalli dagsins. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sendi nýverið frá sér bók um alþjóðasamskipti Íslands frá landnámi til stofnunar lýðveldis en samkvæmt rannsóknum Baldurs er ávinningurinn ótvíræður þegar kemur að samfélagslegum málefnum, svo sem varðandi menntun Íslendinga erlendis, trúmálum og fleiri atriðum. Ísland var ekki einangrað þrátt fyrir sjálfsþurftarbúskap um tíma og var hluti af alþjóðlegu markaðssvæði miklu fyrr en flesta grunar. Tónlist: The fool on the hill og Let it be með Bítlunum. Dirty paws með Of monsters and men. Umsjón: Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir.