Facebook, pólitík og Mynd af manni

Share:

Listens: 0

Morgunvaktin

News


Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, fór yfir stöðu Facebook eftir að Frances Haugen, fyrrverandi starfsmaður Facebook, bar vitni fyrir þingnefnd bandaríska þingsins nýverið. Þar sagði hún samfélagsmiðilinn ala á sundrungu, skaða börn, veikja lýðræðið og að mikilvægt væri að setja reglur yfir hann. Daginn áður hafði tæknilegt vandamál valdið því að samskiptamiðillinn var lokaður í tæpar sjö klukkustundir og eins aðrir miðlar í eigu Facebook, það er Instagram og Whatspp. Hlutabréf Facebook lækkuðu töluvert í verði á Wall Street í kjölfarið en verð þeirra hafði hækkað mikið undanfarna mánuði. Þórður Snær fjallaði einnig um áhrif kórónuveirunnar á fjármál sveitarfélaga í landinu og hversu lítið ríkið hefði komið þar að ólíkt því sem var annarsstaðar á Norðurlöndunum. Undir lok spjallsins um efnahag og samfélag var farið yfir nýleg kaup Sádí-Araba á enska knattspyrnufélaginu Newcastle. Arthúr Björgvin Bollason fjallaði um stjórnarmyndun í Þýskalandi og erfiðleika Kristilega demókrata. Armin Laschet hefur tilkynnt um að hann ætli að láta af störfum sem forystumaður flokksins. Þess í stað ætlar hann að leggja af stað í ferðalag um landið og hlera hvað grasrót Kristilegra demókrata hafi til málana að leggja. Öldungaráð sem kemur saman alla morgna á kaffihúsi sem Arthúr Björgvin sækir í Rínarlöndum hefur sínar skoðanir á öllum mögulegum og ómögulegum málefnum í þýsku samfélagi, ekki síst stjórnmálum. Sigrún Helgadóttir líffræðingur hefur skrifað bók um ævi og störf Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Bókin er í tveimur bindum og heitir Mynd af manni. Sigrún sagði frá Sigurði; störfum hans og meðal annars barst talið að textagerð og dagbókarskrifum vísindamannsins. Tónlist: Vestast í Vesturbænum með Nútímabörnum og Spánarljóð með Jónasi Jónassyni ásamt Hljómsveit Svavars Gests. Umsjón: Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir.