Brasilía, Mexíkó og kosningabarátta í Noregi og Þýskalandi

Share:

Listens: 0

Heimsglugginn

News


Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, stendur í stórræðum þessa dagana. Hæstiréttur landsins hefur fyrirskipað rannsókn vegna órökstuddra fullyrðinga um kosningasvindl. Forsetinn ítrekaði þessar yfirlýsingar á fjöldafundum með stuðningsmönnum sínum á þjóðhátíðardegi Brasilíu. Kannanir benda til þess að Bolsonaro tapi í forsetakosningum á næsta ári fyrir Lula da Silva, fyrrverandi forseta. Þetta var meðal þess sem Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir ræddu um við Boga Ágústsson í Heimsglugganum í Morgunavaktinni á Rás 1. Hæstiréttur Mexíkó hefur úrskurðað einróma að lög sem banna þungunarrof stangist á við stjórnarskrá ríkisins. Hingað til hefur þungunarrof fyrstu tólf vikur meðgöngu verið löglegt í Mexíkóborg og þremur öðrum fylkjum landsins. Annars staðar í Mexíkó hefur þungunarrof aðeins verið leyfilegt ef konunni var nauðgað. Kosningabarátta í Noregi og Þýskalandi Norðmenn kjósa til Stórþingsins á mánudag og kannanir benda til þess að vinstriflokkar fái meirihluta og Erna Solberg láti af völdum eftir að hafa verið forsætisráðherra í átta ár. Í Þýskalandi benda kannanir enn til þess að Jafnaðarmannaflokkurinn verði stærsti flokkurinn á þingi eftir kosningarnar 26. september.