Bólusetningatregða, Líbanon og danska ríkissambandið

Share:

Listens: 0

Heimsglugginn

News


Víðast á Vesturlöndum er nú meira framboð af bóluefni gegn COVID-19 en eftirspurn. Mörg ríki hafa gripið til aðgerða til að hvetja almenning til að láta bólusetja sig, en í mörgum ríkjum er tortryggni á bólusetningar, einkum þar sem traust á stjórnvöldum er ekki jafn mikið og á Íslandi. Alls kyns samsæriskenningar um annarlegan tilgang bólusetninga lifa góðu lífi. Í Bandaríkjunum er áberandi að stuðningsmenn Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, eru tregari til að láta bólusetja sig en aðrir landsmenn. Joe Biden forseti hefur nú beðið ríkisstjóra í Flórída og Texas að láta af andstöðu við bólusetningar eða í það minnsta ekki flækjast fyrir. Í Ástralíu hafa aðeins um 20 prósent landsmanna verið bólusett en það er vegna skorts á bóluefnum. Áströlsk stjórnvöld lokuðu landinu í upphafi faraldursins og ætluðu að reyna að halda kórónuveirunni frá landinu, en það hefur ekki tekist. Víðtækar ráðstafanir eru í gildi til að reyna að hefta útbreiðslu COVID-19. Útgöngubann er í stærstu borg landsins, Sidney. Margir Ástralir eru orðnir þreyttir á ástandinu. Skelfilegt ástand ríkir í Líbanon ári eftir mikla sprengingu í höfuðborginni Beirút sem varð á þriðja hundrað manns að bana og lagði stóran hluta borgarinnar í rúst og var afar þungt högg fyrir efnahagslíf landsins. Verðmæti gjaldmiðils landsins hefur hrunið, skortur er á nauðsynjavörum, langar biðraðir eftir nauðsynjum eins og eldsneyti og rafmagnslaust er langtímum saman. Bilið milli ríkra og fátækra eykst stöðugt. Langvarandi óstjórn og spilling stendur í vegi uppbyggingar. Að lokum ræddu Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir við Boga Ágústsson um ríkissamband Dana, Færeyinga og Grænlendinga. Ný þáttaröð danska ríkissjónvarpsins fjallar um 300 ára sögu sambandsins og spyr hvort enn sé grundvöllur fyrir það.