8. október 2021 Enn mælist hreyfing ofan Seyðisfjarðar

Share:

Spegillinn

News


Íbúar á Seyðisfirði sem þurftu að rýma hús sín í vikunni fá ekki að fara heim til sín um helgina. Hreyfing í hrygg við Búðará nemur 7 sentimetrum. Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að stöðva notkun á bóluefni Moderna hér á landi vegna aukinnar tíðni hjartabólgu og gollurshússbólgu eftir bólusetningu. Freyr Gígja Gunnarsson sagði frá. Stéttarfélög skora á Icelandair að draga uppsögn trúnaðarmanns á Reykjavíkurflugvelli til baka. Hildur Margrét Jóhannsdótitr tók saman. Á sjöunda hundrað hælisleitendur voru handteknir í Mexíkó í gærkvöld þegar þeir hugðust komast yfir landamærin til Bandaríkjanna. Fjöldi barna var í hópnum, mörg ein síns liðs. Ásgeir Tómasson sagði frá. Innan skamms verður í fyrsta skipti hægt að nálgast á einum stað upplýsingar um hversu mikið af íbúðarhúsnæði er í byggingu hverju sinni. Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir þetta byltingu sem koma muni jafnvægi á markaðinn. Magnús Geir Eyjólfsson ræddi við hann. Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt, missir húsnæði sitt í Mjódd í Reykjavík í nóvember segir Ásta Þórdís Skjalddal, samhæfingarstjóri Pepps. Hlátrasköllin ómuðu um alla ganga hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri í gærkvöld þegar fyrsta kráarkvöldið var haldið eftir faraldurinn. Eðalveigar flæddu á meðan heimilisfólkið söng og dansaði. Óðinn Svan Óðinsson talaði við Ástu Júlíu Aðalsteinsdóttur viðburðastjóra í Hlíð. ------------------------------------------------ Húsnæðismál eiga að snúast um að fólk komist í öruggt skjól en ekki þjóna fjármálaöflunum að mati Drífu Snædal forseta Alþýðusambands Íslands. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Drífu. Við gerð hættumats á ofanflóðasvæðum í þéttbýli var að mestu litið til snjóflóða, og ástæða er til að endurskoða matið á ýmsum stöðum þar sem er skriðuhætta, að mati Magna Hreins Jónssonar, hópstjóra ofanflóðahættumats á Veðurstofu Íslands. Ragnhildur Thorlacius ræddi við hann. Fjölmiðlafólk frá Rússlandi og Filippseyjum fékk friðarverðlaun Nóbels í dag. Gísli Kristjánsson sagði frá. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Mark Eldred