News
Míuverðlaunin eru verðlaun sem heiðra þau sem koma að þjónustu langveikra barna á einn eða annan hátt. Hægt er að tilnefna heilbrigðisstarfsmann í hvaða starfstétt sem er, hvar á landinu sem er. Þær Þórunn Eva G. Pálsdóttir og Fríða Björk Arnardóttir komu til okkar í morgunkaffi til að segja okkur meira, en þær vita allt um málið. Talið er að um 10 milljónir efna bætist við á hverju ári í hóp efna sem skaðleg eru fólki og rannsóknir taka sinn tíma, svo niðurstöður liggja ekki alltaf strax fyrir. Það leiðir til þess að stjórnvöld ná ekki að setja reglur til að takmarka eða banna framleiðslu og notkun þeirra nógu tímalega. Í hádeginu í dag er opinn fyrirlestur um skaðleg efni á heimilinu á vegum Umhverfisstofnunar og við fengum Bergdísi Björk Bæringsdóttur, sérfræðing á sviði efna, eftirlits og veiðistjórnunar til að segja okkur aðeins af þessu. Við veltum fyrir okkur aldurstakmörkunum á kvikmyndum, en athygli vekur að íslenska kvikmyndin Leynilögga sem frumsýnd er í þessari viku, er í boði annars vegar fyrir 12 ára og eldri og hins vegar 16 ára og eldri. Í hverju liggur munurinn og hverjar eru reglurnar? Er regluverkið hér það sama og erlendis eða annað? Hallgrímur Kristinsson formaður Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði kom til okkar og fræddi okkur um þetta. Í sjónvarpþættinum Kveik í gærkvöldi á RÚV kom fram að nærri 60 prósent stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda af sér nektarmynd eða ögrandi mynd og rúm 30 prósent hafa þegar gert það. Í þættinum var talað við tvær grunnskólastúlkur sem seldu af sér kynferðislegar myndir og notaðar nærbuxur í fyrrasumar, þá 13 ára. Mörgum er brugðið eftir umfjöllunina og foreldar vilja vita hvernig bregðast á við og fræða börn sín, af öllum kynjum. Foreldrar hafa verndarskyldu gagnvart börnum, en vankunnátta og skortur á þekkingu kemur oft í veg fyrir að hún skili sér. Til að ræða þessi mál kom til okkar Margrét K. Magnúsdóttir forstöðumaður Barnahúss. Ragnhildur Þórðardóttir, sálfræðingur og einkaþjálfari, einnig þekkt sem Ragga Nagli, er einn þekktasti heilsu ráðgjafi landsins. Hún er þó ekki búsett á Íslandi, heldur í Danmörku, en er stödd á landinu um þessar mundir og við gripum því tækifærið og fengum hana í heimsókn í smá heilsuspjall að hausti. Tónlist: Geiri Sæm og Hunangstunglið - Er ást í tunglinu? GDRN - Næsta líf. Lorde - Mood ring. Adele - Easy on me. Gugusar - Röddin í klettunum. U2 - Pride in the name of love. Dua Lipa - Love again. Herbert Guðmundsson - Með stjörnunum. Lenny Kravitz - Let love rule. Lón - Earthquake.