History
„Þannig er miðaldasagan mjög mikið svona púsluspil – maður er að taka púsl hér og þar, búa til einhverja svona trúverðuga mynd og þarf að vera mjög gagnrýninn á allar heimildir. Og ef það tekst þá er maður samt einhverju nær,“ sagði Sverrir Jakobsson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslandssem sérhæfir sig í miðöldum. Hann hefur m.a. gefið út bækurnar Við og veröldin – Heimsmynd Íslendinga 1100–1400, Auðnaróðal – Baráttan um Ísland 1096–1281 og Kristur – Saga hugmyndar. Sverrir ræddi við Steinunni Sigþrúðardóttur Jónsdóttur og Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur í öðrum þætti Baðstofunnar. Umræðuefnið var miðaldasaga, en Sverrir hefur undanfarið stýrt verkefninu Norrænir menn í Austurvegi, þar sem hann skoðar sérstaklega sögu Væringja og Garðaríkis. Fjöldi annarra fræðimenna kemur að verkefninu en Sverrir hefur einblínt sérstaklega á hugarfar og heimsmynd miðaldamanna, og skoðar í þessu verkefni tengsl á milli menningarheima með því að bera saman heimildir mismunandi menningarheima sem geta þessara manna. Í þættinum ræddi hann áskoranir þess að vinna með efni sem margir telja „fullskrifað“, en Sverrir segir íslenska miðaldafræðinga eiga meira en nóg eftir órannsakað, þar sem það væri alltaf hægt að spyrja heimildirnar nýrra spurninga. Hann sagði ýmislegt vera til í þeirri staðhæfingu að hver kynslóð þyrfti að skrifa söguna upp á nýtt, og miðaldasagan er engin undantekning á því.