News
Flestir tengja útilegur við sumarið hér á landi, en þó finnst fólk sem stundar útilegur á veturna líka. Þeirra á meðal eru fjallastelpurnar Hafdís Huld Björnsdóttir og Valgerður Húnbogadóttir sem hafa gist úti a.m.k. eina nótt í mánuði undanfarið eitt og hálft ár. Þær kíktu til okkar í útileguspjall. Óánægja ríkir meðal talmeinafræðinga vegna ákvæðis í samningum um tveggja ára starfsreynslu hjá ríki eða sveitarfélögum til að geta komist á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands. Séu slík störf ekki í boði lenda nýútskrifaðir talmeinafræðingar milli skips og bryggju og þurfa þess vegna mörg að starfa utan samnings, sem þýðir að skjólstæðingar þeirra verða að borga fullt gjald fyrir þjónustuna hverju sinni, því ekki kemur til niðurgreiðsla frá ríkinu. Talmeinafræðingarnir Eyrún Svava Ingvadóttir og Brynja Dögg Hermannsdóttir fóru yfir þetta mál með okkur. Í neyslusamfélagi vestrænna ríkja fer gríðarlega mikið af fatnaði í ruslið, endurvinnslu eða til gjafa og mikið af þessum flíkum enda í Afríku. Nú er svo komið að fatasóun Vesturlandabúa myndar fatafjöll í Afríku og mikið af fötunum er af svo litlum gæðum að þau nýtast ekki, líkt og við sáum í sjónvarpsfréttum um helgina. Katrín María Káradóttir frá Listaháskóla Íslands og Guðbjörg Rut Pálmadóttir frá Rauða krossinum komu til okkar og ræddu þessa stöðu. Birgir Þórarinsson er sennilega umtalaðasti maður Íslands þessa dagana, en óvænt skipti hans úr Miðflokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn, fljótlega að kosningum loknum, hafa vakið sterk viðbrögð. Sumir tala um svik við kjósendur og flokkinn, en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur boðið Birgi velkominn. Varaþingmaður hans hefur nú lýst því yfir að hún muni ekki fylgja Birgi, en hún hafði áður sagt honum að hún myndi styðja hann. Birgir var gestur okkar í Morgunútvarpinu. Tæknihornið var svo á sínum stað þar sem Guðmundur Jóhannsson fræddi okkur um sitthvað áhugavert úr heimi tækninnar. Tónlist: Mugison - Little trip to heaven. Bubbi Morthens - Er nauðsynlegt að skjóta þá? Kacey Musgraves - Justified. Albatrosss - Ég sé sólina. Bríet - Sólblóm. Sting - If its love. Olivia Rodrigo - Drivers license.