History
„Sumir halda því fram að tilfinningar séu sammannlegar, og ég held að það sé ekki rétt. Við sjáum það í bændasamfélagi 19. aldar. Bara þetta — að missa barn — við myndum náttúrulega leggjast í rúmið ef við misstum kornabarn. Það er hryllilegur atburður, og það eru frásagnir af því sem við erum að lesa í blöðunum núna í dag, ef fólk missir ungt barn. En á þessum tíma þá hafði fólk bara ekkert val, það bara varð að halda áfram. Taktur hversdagslífsins kallaði á það að þú sinntir skepnunum; þú gast ekkert dregið þig í hlé og syrgt. Þú þurftir að gera það allavega á einhvern annan hátt,“ sagði Sigurður Gylfi Magnússon, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, og bætti við að hann taldi fólk hafa tjáð sig í gegnum bókmenntir, þar sem fjöldinn allur af lausavísum um alls kyns tilfinningar liggur eftir bændasamfélag 19. aldar. Sigurður Gylfi ræddi við Steinunni Sigþrúðardóttur Jónsdóttur og Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur í fyrsta þætti Baðstofunnar. Umræðuefnið var tilfinningasaga (e. emotionology), sú grein innan sagnfræðinnar sem skoðar sögu tilfinninga. Hlutur tilfinninga í sagnfræðiritum hefur aukist hratt og örugglega undanfarin ár og áratugi. Sigurður Gylfi er með doktorkspróf frá Carnegie Mellon háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hann lærði undir Peter N. Stearns, einum fremsta tilfinningafræðing heims, sem hann sagði hafa haft áhrif á sýn hans á viðfangsefni sagnfræðinnar. Saga tilfinninga tekst á við fjölbreytt efni, líkt og hlutverk reiðinnar í samfélagsþróun, hvernig fólk syrgir, og hvernig fólk elskar. Tilfinningasagnfræðingar hafa einnig tekist á um hvort tilfinningaleg geta fólks hafi tekið breytingum í gegnum tíðina, þar sem sumir líta á ást sem nútímafyrirbæri og aðrir telja einungis tjáningu tilfinninga eins og ástar vera breytilega. Sigurður Gylfi hefur m.a. skrifað um ást og sorg út frá tveim bræðrum á Ströndum — þeim Halldóri og Níels —í bók sinni Menntun, ást og sorg. Hann lýsir reynslu sinni af þeirri rannsókn, en nýlegasta bókin hans, Emotional experience and microhistory, skoðar tilfinningalíf og reynslu Magnúsar Hj. Magnússonar, sem var einstaklega ritfær og varð Halldóri Laxness fyrirmynd að Heimsljósi. Báðar þessar rannsóknir áttu það sameiginlegt að sýn hans á einstaklingana sem hann fjallar um gjörbreyttist með tilkomu nýrra heimilda. Hann sagði heimildirnar geta verið ótrúlegar: „Það getur verið erfitt að vinna sem sagnfræðingur, reyna að setja sig í spor fólks sem þú telur þig þekkja vel, og þér líkar vel við fólkið. En svo kemur bara eitthvað annað í ljós.“